08 June 2011

Hvað ef ...?

Hlynur Bæringsson skrifaði svakalega góða grein á bloggið sitt þann 5. Febrúar á þessu ári, þar sem hann talaði um Eftirsjá íþróttamannsin – þið getið lesið bloggið hér. Þessi grein hefur setið í mér síðan ég sá þetta og hugsa ég reglulega um það sem hann sagði því þetta á við marga íþróttamenn.

Hlynur er að tala um hvort hann hefði getað gert betur á sínum ferli? en hann spilar nú í Svíþjóð með Sundsvall og hefur gengið vel. En þegar hann lítur til baka þá virðast vakna hjá honum margar spurningar, hvar hann hefði getað endað ef hann hefði æft aukalega, hlustað á þjálfarann, og fleira í þeim dúr. Mér finnst þetta brilliant og einlægur pistill hjá honum, og finnst góð lesning fyrir allt okkar íþróttafólk.
Hann segirég fékk frábær tækifæri til að læra af mönnum sem vissu og vita enn meira en ég um leikinn. Hvernig á að spila hann og hvað þarf til. Því miður hlustaði ég ekki alltaf og forgangsraðaði ekki rétt.”
Þegar þú hittir góða þjálfara áttu að reyna að læra sem mest af þeim öllum, en það þýðir samt ekki að allir hafi rétt fyrir sér, þú verður svo að vinna úr þeim upplýsingum sem þú færð og tileinka þér það sem hentar þér, þótt einhver sé þjálfari þá veit hann ekki alltaf best (jesúss nú fæ ég skammir frá þjálfurunum í email).
Einnig segir hann  „Þær spurningar sem ég hef spurt og það sem ég hef talað um eru allt hlutir sem ég verð að lifa við, get ekki breytt því sem liðið er. Ég get gefið ungum íþróttamönnum sem hafa einlægan áhuga á því að ná langt það ráð að forðast það að þurfa seinna meir að velta fyrir sér "hvað ef?" spurningunum. Gera þetta eins vel og hægt er, hafa íþróttina algjörlega i fyrsta sæti því það dugir ekkert minna. Það verður enginn sérstaklega góður af því að æfa 3-4 sinnum í viku, klukkutíma í senn.“
Þetta er frábært ráð frá frábærum íþróttamann til ykkar, takið þetta til ykkar!
---
Eftir að ég las þennan pistil settist ég niður og hugsaði hver eru mín „hvað ef“, og þá fattaði ég að mín voru allt önnur en hans.

Ég fór offari í öllu, ég gerði of mikið af öllu, ég ætlaði að ná svo langt að ég fór aðeins yfir strikið, og kolféll um sjálfan mig og endaði í svakalegri ofþjálfun sem ég er ennþá að glíma við í dag (en það eru 4 ár síðan).
Það var það sem kláraði minn feril, ég æfði of mikið, ég hugsaði vel um líkamann að mörgu leyti, hugsaði vel um hugarþjálfunina, og var nokkuð góð í næringunni, en ég sé núna að ég skildi ekki nógu vel hvað góð hvíld og næring skipta miklu máli.
Ég tók allar aukaæfingarnar, ég hlustaði á alla þjálfarana og lærði af þeim það sem ég gat lært, ég gerði þetta auka sem til þurfti, ég borðaði hollan mat – en allt of lítið af honum (allt of fáar hitaeiningar yfir daginn), ég hvíldi mig ágætlega en ekki nóg, ég svaf ekki nóg, og þar með náði líkaminn ekki að jafna sig nógu vel milli æfinga, en ég var í erfiðum æfingum. Ég endaði í ofþjálfun – og það af verri kanntinum, hef ekki heyrt um neinn sem endaði eins illa og ég, en ég mun blogga um það eftir helgi.
Þess vegna er ég nánast paranoid þegar ég sé þreytumerki á íþróttamönnum, ég vil helst vita hversu mikið þeir æfa sem æfa hjá mér, ég hef oft stoppað fólk af og einfaldlega bannað þeim að fara á aukaæfingar, og sent þau frekar í heita pottinn eða pantað fyrir þau nudd.
Öllu má nú ofgera og þú sem íþróttamaður þarft að finna línuna sem þú þarft að dansa á til að ná árangri, það skiptir miklu máli fyrir alla að læra á líkamann sinn, að hlusta á hann, og vita hvað hann þarf, því ef líkaminn er bensínlaus þá kemstu nú ekki langt! Það þarf að hugsa um svo marga þætti, og ekki gleyma að hafa gaman af, íþróttir eru skemmtilegar, það er gott að taka íþróttina alvarlega, en það má ekki vera langt í gamanið og allir þurfa einnig smá kæruleysi...
Vil að þú lærir af þessum reynslusögum ...
Gangi þér vel!

1 comment: