18 June 2011

Evrópubikar í frjálsum íþróttum :)

Fór á völlinn í dag að horfa á Evrópubikarinn í frjálsum íþróttum, en Íslenska landsliðið berst fyrir því að komast upp í 2.ra deild.

Ég bjóst við því að mér finndist skrítið að sitja á pöllunum og horfa á mótið, en núna eru 3 ár frá því að ég hætti (finnst það hafa gerst í gær), en það skrítna við þetta er að ég sakna þessa ekki neitt að keppa á þessum mótum.

Gaman var að sjá marga bæta sig, það er alltaf gaman að toppa á réttum tíma, en oft getur verið erfitt að ná að haga æfingunum þannig að þú toppir á réttum tíma. En ég sá t.d. Fjólu Signýju bæta sig um 3 sekundur í 400 metrum og var gaman að sjá gleðina og viðbrögðin hennar, Kristinn Torfason bætti sig í langstökkinu - alltaf jafn ógeðslega gaman að sjá hann keppa, því þvílíkur er stökkkrafturinn í drengnum. Trausti  Stefánsson var við sitt besta í 400 metrunum, en hann var svo óheppinn að lenda í lakari riðlinum, hugsa að ef hann hefði lent í hraðari riðlinum þá hefði hann bætt sig.

Ég á margar minningar frá Evrópubikarnum í gegnum tíðina, er ekki viss hvað ég var gömul þegar ég keppti á mínum fyrsta Evrópubikar, örugglega um 16 ára þar sem það var um það leyti sem ég byrjaði að æfa á fullu. 
Sama í hvaða íþrótt - það er alltaf jafn gaman að sjá íþróttamenn bæta sig, ná markmiðinu sínu, eða ná einhverju sæti - það er svo gaman að fylgjast með viðbrögðunum - þessa ofsagleði - ég sakna hennar samt!

Ég hef unnið mörg hlaup í Evrópubikarnum í gegnum tíðina, allt frá 200, 400, 400 grind, og keppti einnig í 100m, 100 grind, 4x100 metra boðhlaupi, og 4x400m boðhlaupi, man að einhvern tíman keppti ég í öllum þessum greinum á einu og sama mótinu ... (djöfulsins bilun er það). Oftast var ég með 400 grind, 200m, og bæði boðhlaupin.

Tímasetningin á þessu móti hentaði mér oft ekki, en í flestum ferðum átti ég afmæli þessa helgi, en ég á afmæli 23. júní, og það sem meira er að Vignir maðurinn minn á einnig sama afmælisdag... Þannig að fyrstu 10 árin í sambandinu okkar vorum við bara 2x saman á afmælisdaginn okkar út af Evrópubikar ...

Eitt eftirminnilegt atvik var þegar mótið var á Kýpur, og í upphituninni þá flýgur leðurblaka á mig, og krækir klónum í fléttuna í hárinu á mér... og ég man ég hélt áfram að hlaupa því ég vildi halda coolinu, þrátt fyrir leðurblöku vængirnir lömdu mig í andlitið :) haha fólk hló mikið þegar ég loksins stoppaði og hoppaði um :) Nokkrum mínútum síðar þá vann ég 400 metrana í fyrsta sinn með glæsilegri bætingu  (undir 54 sek) :)

Gaman að rifja þetta upp, fann nokkrar myndir sem minna mig á góða tíma :)  verð að láta þær fljóta með :)
 





Seinni dagurinn er á morgun - væri gaman að sjá sem flesta á vellinum :)

Ætla núna að kíkja á U21 árs landsliðið okkar - sjá þá vinna eins og einn erfiðan leik :)

Hafið það gott

Áfram Ísland

No comments:

Post a Comment